Diego Hagkaupskisi fannst í Grafarvoginum

Diego er líklega einn þekktasti og mest auglýsti köttur landsins. Hann býr í Fossvoginum og fer líklegast daglega yfir brúnna í Skeifuna að spjalla við fólk í strætóskýlinu eða við innganginn að Hagkaup í Skeifunni. Hann er mjög reglulega auglýstur á síðum og spurt hvort hann sé nokkuð týndur og þetta hefur orðið að ákveðnu menningarlegu fyrirbæri innan kisu hópanna á Facebook.

En í dag var Diego auglýstur af konu í Vallarhúsum í Grafarvoginum þar sem hann hafði komið inn í gegn um kattarlúguna hennar. Á nokkrum mínútum frá því hún setti inn auglýsinguna var fólk búið að átta sig á því að þetta væri Diego, að hann væri langt frá heimili sínu og hafa samband við eigandann sem kom og sótti hann.

Eigandanum fannst þetta mjög óþæginlegt því Diego hafði verið heima í hádeginu, það var því alveg á hreinu að hann hafi ferðast með bíl. Þótt Diego sé mjög mannblendinn þá fer hann ekki upp í ókunnuga bíla og því mjög ólíkt honum ef hann hefur húkkað sér far.

Þetta tilfelli endaði þó sem betur fer vel. En því miður er ekki allir kettir jafn auðþekkjanlegir og frægir og Diego. Þar af leiðandi vill Dýrfinna ýtreka fyrir fólki að fylgjast með köttunum í hverfinu og setja inn auglýsingu ef þú kannast ekki við kisu.

Inni á heimasíðu Dýrfinnu má líka finna lista af sjálfboðaliðum sem eiga örmerkjaskanna sem geta komið og lesið af kisunni, það er í flestum tilfellum öruggara en að færa kisu úr sínu umhverfi ef hún er ekki týnd, eða eiga á hættu að missa hana út í glænýju umhverfi.

Hjálpum týndum dýrum að komast heim – fylgjumst með kisunum í hverfinu