Um okkur

Hæhæ,

Hvað er Dýrfinna?

Dýrfinna eru félagasamtök sem hjálpar týndum gæludýrum og eigendum þeirra, til dæmis með því að fara og lesa af örmerki dýra sem líklega eru týnd og vera með fræðslu til að auka réttar skráningar á dýrum í landlæga gagnagrunna. Dýrfinna þróar smáforrit til að skrá gæludýr, finna týnd dýr og veita upplýsingar um ábyrgt gæludýrahald. Smáforritið mun auðvelda fólki að skrá dýrin sín, auglýsa þau týnd og athuga hvort laus dýr í hverfinu hafi verið auglýst týnd.

Hvað er hundasveitin?

Hundasveitin er hópur kvenna sem hjálpa til í leitum að týndum dýrum, veita ráðgjöf út frá mikilli reynslu og menntun í atferli týndra dýra og veita andlegan stuðning á erfiðum tímum. Við vinnum alla okkar vinnu í sjálfboðavinnu.

Teymið

Guðfinna Kristinsdóttir

Stofnandi Dýrfinnu og ráðgjafi við leit að týndum dýrum

Stofnandi Dýrfinnu, stjórnandi Hundasamfélagsins og lærð í hegðun týndra dýra frá Missing Animal Response í Bandaríkjunum. Hefur síðan 2016 veitt ráðgjöf og skipulag við leitir ásamt því að gera auglýsingar fyrir eigendur týndra hunda.

Freyja Frekja Kjartansdóttir

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Áratuga reynsla á gæludýrum og gæludýravörumarkaði á Íslandi. Hefur reynslu og þekkingu á tækjabúnaði sem nýtist við leitir, eins og t.d. nætursjónaukar, hreyfimyndavélar, uppsetningu fellibúra og fleira. Mikil þekking þegar kemur að greiningu á beinum og sporum, ásamt reynslu og þekkingu á hegðun týndra dýra. Hefur lokið námskeiði í skyndihjálp dýra.

Anna Margrét Áslaugardóttir

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Starfar á dýraspítala og er að læra dýrahjúkrun hjá Australian College of Veterinary Nursing.  Hefur mikla reynslu af hegðun týndra dýra, uppsetningu fellibúra og hreyfimyndavéla ásamt greiningu á sporum og beinum. Með umsjón samfélagsmiðla.

Sandra Ósk Jóhannsdóttir

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Með BSc í sálfræði. Miklir hæfileikar í samskiptum við fólk og býður upp á áfallahjálp að kostnaðarlausu fyrir eigendur týndra dýra þegar dýr finnst látið eða finnst ekki.  Hefur lokið meðfram námi sínu í sálfræði tveimur námskeiðum hjá Rauða Krossi Íslands í bæði sálrænum stuðningi og sálrænni fyrstu hjálp. Einnig tók hún áfangann sorg, áföll og sálræn skyndihjálp í Háskóla Íslands.

Með umsjón samfélagsmiðla ásamt auglýsingagerð, kortagerð og almennu umhaldi á vísbendingum sem berast við skipulagða leit að týndum hundum.

Eygló Anna Ottesen

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Hefur mikla reynslu af leitum á hundum og hegðun þeirra. Er einnig með margra ára reynslu af hestamennsku. Hefur umsjón með samfélagsmiðlum og almennu umhaldi á vísbendingum sem berast við leitir á vegum Dýrfinnu. Er með reynslu og þekkingu í að spora með hund sem nýtist í leitum að týndum hundum. Hefur lokið námskeiði í skyndihjálp dýra.

Elín Ósk Blomsterberg

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Mikil reynsla af skipulagðri leit að týndum hundum.  Veruleg þekking og reynsla á hegðun týndra gæludýra. Hefur lokið námskeiði í skyndihjálp dýra.

Ragnheiður Lilja Maríudóttir​

Ráðgjafi og sjálfboðaliði við leit að týndum dýrum

Mikil reynsla af skipulagðri leit að týndum hundum ásamt kortagerð af helstu vísbendingum sem berast við skipulagða leit. Veruleg þekking og reynsla á hegðun týndra gæludýra. Hefur reynslu á uppsetningu fellibúra og hreyfimyndavéla. Hefur lokið námskeiði í skyndihjálp dýra.

Smáforritið

Í smáforritinu getur eigandi skráð gæludýrin sín rafrænt og uppfært upplýsingar eins og heimilisfang auðveldlega. Einnig yrði forritið notað til að senda tilkynningu á aðra notendur í nágrenninu ef gæludýr týnist og notendur forritsins geta þá hjálpað til við að finna dýrið og koma því í hendur eiganda. Notendur geta skráð sig í leit að ákveðnu dýri og deila þá staðsetningu sinni með öðrum sem eru í leitinni, geta haft samskipti við hvort annað í gegn um hópspjall og skipulagt sig við leitina. Einnig væri hægt að sjá lista af fólki í hverfinu sem á örmerkjaskanna og væri til í að koma og lesa örmerki af týndu dýri. Smáforritið myndi einnig styrkja nágrannavörslu og minnka óþarfa umferð við að fara með dýr til dýralæknis eða dýraeftirlitsaðila á vegum sveitarfélagsins til að lesa af örmerki. Forritið er frábær leið fyrir eigendur gæludýra til að skipuleggja leit af týndum dýrum og að fá upplýsingar um hegðun týndra dýra og hvernig sé best að haga leit eftir aðstæðum.

 

Forritið er tilbúið í hönnunarfasa og er aðeins að leitast eftir fjármögnun fyrir forritun á smáforritinu sjálfu. Hægt er að stykja verkefnið beint:

Kennitala: 560822-1700

Reikningur: 515-26-9649

IBAN: IS140515260096495608221700

Félagasamtökin

Félagasamtökin eru stofnuð til að sameina fyrirtækið Cybele og hóp sjálfboðaliða sem kölluðu sig Hundasveitina. Verkefni fyrirtækisins Cybele ehf. var að þróa smáforritið og er stofnandi fyrirtækisins Guðfinna Kristinsdóttir. 

Guðfinna er annar stjórnandi hópsins Hundasamfélagið á Facebook og heldur úti samnefndri heimasíðu. Í hópnum eru 55 þúsund meðlimir hundaeigenda eða áhugafólks um hundaeign. Árið 2015 byrjaði Guðfinna að taka eftir því að fólk var farið að nýta Facebook hóp Hundasamfélagsins í miklum mæli til að auglýsa bæði týnda og fundna hunda sem komust heim með mjög góðum árangri. Síðan þá hefur Guðfinna tekið saman upplýsingar um fjölda týndra hunda á samfélagsmiðlunum og safnað að sér upplýsingum og menntun um hegðun týndra dýra og þróað smáforrit samhliða ætlað til þess að auðvelda leit að týndum dýrum og veita upplýsingar um ábyrgt gæludýrahald.

Hundasveitin samanstendur af Önnu Margréti Áslaugardóttur, Freyju Kjartansdóttur, Söndru Ósk Jóhannsdóttur, Eygló Önnu Ottesen, Elínu Ósk Blomsterberg, Ragnheiði Lilju Maríudóttur og Snædísi Þorleifsdóttur. Þær eru hópur sjálfboðaliða sem voru duglegar að hópa saman í leit að týndum hundum og kynntust flestar þannig. Óformlega varð hópurinn því stofnaður í desember 2019 í leit að týndum hundi. Síðan sameinaðist Guðfinna hópnum og hafa þær lagt saman þekkingu og reynslu í einn sterkan hóp sem sinnir nú fjölbreyttum verkefnum ásamt virkri leit að týndum hundum, eins og ráðleggingar við leitir að hundum, köttum og fuglum, álestur dýra til að athuga með örmerki og að koma dýrum heim til sín, lífs eða liðnum. 

Vandamálið

Það týnast að meðaltali 3 hundar á dag á Höfuðborgarsvæðinu, þessir hundar týnast í flestum tilfellum utan þjónustutíma hundaeftirlits sveitarfélaganna um kvöld og/eða um helgar og sem betur fer er Faceboook yfirleitt fljótt að taka á þeim málum. En það koma einstaka tilfelli þar sem nauðsynlegt er að skipuleggja leit, t.d. þegar hundar týnast úr pössun. Algengast er að erfitt sé að koma dýri heim af því örmerki eru ekki skráð í landlægan gagnagrunn eða á vitlausan eiganda.  Dýrfinna selur örmerkjalesara fyrir almenning til að fleiri geti lesið af örmerkjum dýra en það eru ákveðin flækjustig sem Dýrfinna stefnir á að leysa úr.

Kattareigendur eru að mörgu leyti utan núverandi vinnu þar sem gífurlegt magn af köttum týnast, og mjög erfitt að halda utan um það þar sem þeir eru týndir í lengri tíma en hundar og fólk sér oft týnda ketti úti á götu án þess að gera sér grein fyrir því.

Dýrfinna myndi veita sveitarfélögum betri upplýsingar um raunverulegan fjölda gæludýra í sveitarfélaginu þannig að hægt væri að uppfæra og aðlaga þjónustuna við gæludýraeigendur. Einnig fengju gæludýraeigendur þjónustu sem nauðsynlega vantar.

Smáforritið

Smáforritið mun reka sig á sölu á vörum í smáforritinu sem styðja að ábyrgu gæludýrahaldi. Hagnaður Dýrfinnu fer í að þróa betri leiðir til að hjálpa týndum dýrum að komast heim. Auðvelda skráningar og samtengingu við landlægan gagnagrunn og sveitarfélög. Boðið verður notandum upp á að fá ódýrar tryggingar, áskriftir að hundakúkapokum, kattasandi eða aðra þjónustu sem styrkir félagasamtök sem vinna í hag gæludýra. Fyrirtæki geta auglýst sínar vörur og þjónustu í smáforritinu, svo sem sálfræðiþjónusta fyrir fólk sem finnur gæludýrið sitt dáið, drónaflugmenn geta leigt þjónustu sína utan þéttbýlis til að leita eftir gæludýrum, gæludýrahótel, snyrtistofur og hundaræktendur geta auglýst sína þjónustu eða vöru. Tilboð á hundanámskeið eða annað fræðsluefni tengt ábyrgu gæludýrahaldi. Boðið verður upp á ákskriftarleið þar sem hægt er að láta gott af sér leiða aftur til baka í samfélag gæludýraeigenda, svo sem með bættum hundaleiktækjum og svæðum, afsláttur af bólusetningu og geldingu gæludýra og til að styrkja önnur góð verkefni eins og leiðsöguhunda Blindrafélagsins eða stuðningur við gæludýreign aldraðra og öryrkja.

Hundahald er á um 24% heimila samkvæmt MMR könnun sem gerð var árið 2018 og gæludýraeign er í miklum vexti eins og er á Íslandi. 4% aukning var á hundahaldi frá árinu 2015 til ársins 2018 þegar 24% heimila héldu hund og kettir á 16% heimila landsmanna.2 Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir hundar fæðast árlega en 1820 hvolpar voru skráðir innan Hundaræktarfélag Íslands árið 2020 samanborið við 1639 hvolpa árið 2019.3

1 Hundaeftirlit Reykjavíkur https://reykjavik.is/gjaldskrar/hundahald-gjaldskra Hundaeftirlit Kópavogs, Garðabæs og Hafnarfjarðar https://www.heilbrigdiseftirlit.is/hundahald

2 Facebook póstur Hundaræktarfélags Íslands með tölulegum upplýsingum https://www.facebook.com/hundaraektarfelagid/posts/3553228841397275

3 MMR könnun frá 2018 https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/732-um-fjordhungur-landsmanna-medh-hund-a-heimilinu