Moli hvarf ofan í holu á hundasvæði

Moli er 5 mánaða Schnauzer hvolpur

Kristjana Þorgeirsdóttir fór með tvo hunda á hundasvæðið Bala milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar í dag, þann 18. maí. Klukkan rúmlega korter yfir sex var hún að fylgjast með 5 mánaða hvolpinum sínum, Mola, og hundi sem hún var með í pössun að leika sér þegar hún missir sjónar á Mola í sekúndu og það er eins og jörðin hafi gleypt hann. Aðrir hundaeigendur á svæðinu fara að aðstoða hana við leitina og stendur leitin yfir í næstum hálftíma án árangurs, þá ákvað Kristjana að fara aftur yfir svæðið sem hann hvarf frá og eftir mikla leit finnst hola sem leit sakleysislega út að utan, en við nánari skoðun sá hún glitta í augun á Mola. Moli litli hefði aldrei getað komist upp sjálfur án hjálpar því holan var rúmlega metri á dýpt og stór um sig undir yfirborðinu en sem betur fer slapp Moli við sjáanleg meiðsli annað en að vera örlítið skelkaður eftir þessa lífsreynslu.

Hann náðist þó sem betur fer upp og er heill á húfi. Lokað var holunni með stórum steinum en það er áhyggjuefni hversu víð holan er að innan en virkar lítil að utan, það gæti verið að stærri hundur gæti opnað gatið enn meira. Dýrfinna vill því benda á að eigandi Mola brást rétt við með því að fara aftur yfir svæðið sem Moli hvarf frá þar sem hvolpar fara venjulega ekki langt heldur eru líklegri til að fela sig á fyrsta felustað sem þeir finna og svara engu kalli vegna hræðslu, eða detta ofan í holur/skurði/djúpa polla eða aðrar hættur í umhverfinu. Einnig vill Dýrfinna minna á mikilvægi þess að sveitarfélög fari yfir yfirlýst hundasvæði með öryggi hunda og eigenda þeirra í huga. Þetta er ekki eina hættan fyrir hundana á hundasvæðinu við Bala, hálf ónýtar girðingar hanga uppi, gaddavír stendur upp úr grasinu og er vart sjáanlegur hundi sem er á harðahlaupum, djúp bílför eru í grasinu sem getur ollið fótbroti við hraðan leik hundana.

Myndband sem sýnir hversu djúp holan var