Fannst í Kópavogi með ól af öðrum týndum ketti

Elvis kominn heim eftir 17 daga flakk, grannur en heilbrigður

Elvis kom ekki heim föstudaginn 12. febrúar síðastliðinn á heimili sitt í Samtúni, 105 Reykjavík. Eigandinn Böddi Reynis auglýsti eftir honum með öllum tiltækum leiðum en fékk engar vísbendingar. 17 dögum seinna fær hann símtal frá Sunnevu Tómasdóttur sem býr á Rauðarárstíg sem segir honum að Elvis sé fundinn. Það sem gerir þessa sögu ótrúlega er að Sunneva hafði fengið símtal frá hjónum í hamraborg sem höfðu tekið inn kött sem virkaði viltur, lesið á hálsólina og hringt í hana og tilkynnt henni að Simbi, sem hefur einnig verið týndur frá heimili sínu síðan 12. febrúar, sé fundinn. Þegar Sunneva sækir köttinn sér hún að þetta er ekki Simbi þó hálsólin sé vissulega hans. Hún fer á Facebook og finnur aglýsinguna af Elvis og hefur samband við Bödda. Ekki eru til skýringar á því hvernig Elvis, sem týndist sama dag og Simbi, endaði í Hamraborg með hálsólina af Simba. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá Bödda og fjölskyldunni að fá Elvis heim en hvernig það kom til vakti vissulega upp margar spurningar og vakti Böddi athygli á þessu á hópnum Kattarsamfélagið.

Simbi með hálsólina sem Elvis fannst í Hamraborg með.

Við viljum ítreka að Simbi er ennþá ófundinn og sjá má auglýsinguna hér. Simbi er hvítur með svarta bletti á höfði, baki og skottið svart. Ef þú telur þig hafa séð til Simba endilega hafðu samband við Sunnevu í síma 695 2802. Þar sem Elvis fannst í Kópavogi er ekki ólíklegt að Simbi hafi líka ferðast út fyrir sitt svæði við Rauðarárstíg með einum eða öðrum hætti.

Uppfært kl 10:01 þann 03/03/2021

Simbi kom heim sjálfur um klukkan tvö leytið í nótt, hann er grannur, ólarlaus, örlítið skítugur og mjög skelkaður.