Ef innikisa sleppur út

Þegar kettir týnast er mikilvægt að hafa nokkra hluti í huga þegar verið er að leita. Eitt það mikilvægasta er hvort kötturinn sé inniköttur eða ekki, hvort kötturinn sé í eðli sínu forvitinn eða varkár og hvort hann hafi aldrei farið út eða farið út í taumi.

Leitaðu fyrst inni

Leitaðu undir og inn í sófanum, rúmunum og kommóðum til dæmis. Kettir eru þekktir fyrir að geta falið sig vel svo dögum skiptir.

Taktu hring í kring um húsið

Innikisur sem eru óvanar því að fara út eru mun líklegri til að liggja í felum nálægt heimilinu. Leitaðu undir pöllum, inni í runnum, í geymslum/bílskúrum og garðinum – finndu göt sem kisa gæti hafa stungið sér inni í.

Auglýstu á samfélagsmiðlum

Það eru mikilvægt að setja auglýsingar inn á þar til gerðar Facebook síður eins og Kattavaktin og Týnd/fundin dýr, þar sem hópur fólks fylgist markvisst með auglýsingum af týndum kisum. Auglýstu líka inni á hverfissíðunni svo nágrannar sem ekki eru kattafólk geti haft augun opin.

Settu út lyktarstöð

Lyktarstöð er samansafn af lykt sem kötturinn þekkir, bæli eða teppi sem kötturinn sefur á eða föt af þér. Það er algengt að ráðlagt sé að setja kattarsandinn út. Þetta er ráð sem hefur ekki verið nægilega vel rannsakað, en það eru rök fyrir því að köttur gangi á lyktina ef hann hefur farið í felur og ratar ekki heim. Einnig er mælt með að setja út lyktarmikinn blautmat, en hafa ber í huga að ef kisa er hrædd gæti þetta laðað að aðra ketti í hverfinu og valdið því að innikisan þín þorir ekki úr felum.

Prentaðu út miða til nágrannana

Hafðu helstu upplýsingar á miðanum eins og nafn kattarins, góða lýsingu og mynd, hvenær og hvaðan hann týndist, nafn og símanúmer eiganda. Mikilvægt er að biðja nágranna um að hafa augun opin fyrir kisu og kíkja í geymslur og bílskúra eða óska eftir að fá að fara að leita á ofangreindum stöðum.

Leitaðu á kvöldin

Gott er að nota vasaljós til að lýsa undir palla og inn í holur í leit. Augu katta endurkastast í ljósinu. Það er líklegra að kisur þori að hreyfa sig á kvöldin þegar minna er um umferð og læti.

Ef sést í kisu og ekki hægt að ná henni

Vaktaðu svæðið

Hægt er að notast við hreyfimyndavélar í eigu Dýrfinnu, setja mat á svæði sem er talið líklegt að kisa sé á og fylgjast með. Hægt að prófa að hrista dall með uppáhalds namminu eða annað hljóð sem kötturinn þekkir vel, þar sem hann gæti orðið forvitinn.

Fáðu aðstoð

Ef kisa er hrædd og þorir ekki að koma er hægt að óska eftir aðstoð frá ýmist Kattholti eða Villiköttum, bæði lána eða leigja út fellibúr en hafa þarf í huga að það þarf að vakta búrin samkvæmt reglugerð.