Hundurinn minn týndist! Hvað geri ég ?

Aðstæðurnar sem hundur týnist í eru mjög breytilegar og ráðin breytileg eftir þeim en í grunninn eru þau þessi: 

Byrja skal á að henda inn auglýsingu inná hópa eins og hundasamfélagið, týndir hundar og hverfishópinn þar sem dýrið týnist, upplýsingar sem gott er að komi fram eru : hvaðan dýrið týnist, hvenær, hvernig (hræddist eitthvað og hljóp í burtu, er í pössun, var laus fór á flakk, er að lóða, ofl), hvort fólk megi reyna að elta og ná (ekki mælt með fyrir hrædda hunda), SÍMANÚMER og helst fleira en eitt, lýsing á hundinum og hvað er á honum (td ól, beisli, peysa, taumur, flexi taumur ofl). ATH HÉR ER GOTT AÐ SETJA AUGLÝSINGU INNÁ APP DÝRFINNU EF ÞÚ ERT MEÐ ÞAÐ (Kemur út í lok árs 2023 eða byrjun 2024)

Týndur hundur kemur oft aftur á upphafsstað þannig þú mátt ekki fara af staðnum sem hann týnist frá nema skilja einhvern eða eitthvað sem hann þekkir eftir á þeim stað. Við mælum með að opna forstofu eða opna inni í  garð ef dýrið týnist að heiman. Ef dýrið týnist annars staðar þá skal helst setja búr þess með bælinu í (festa hurðina svo hún sé opin) út á þann stað sem hann fór frá, eða bara bælið. Ef ekkert svoleiðis er hendi nálægt þá skal nota hvað sem er sem hefur lykt hundins í eða lykt eigandans (t.d. notuð föt af eiganda, skítug rúmföt eiganda, pullur eða teppi sem dýrið hefur notað). Einnig er gott að setja lyktarsterkan mat út á staðinn.

ATH EF HUNDURINN TÝNIST ÚR PÖSSUN OG HRÆDDIST HAFIÐ STRAX SAMBAND Í NEYÐARSÍMA DÝRFINNU FYRIR RÁÐGJÖF OG MÖGULEGA AUGLÝSINGU OG LEIT. (á einnig við dýr sem eru viðkvæm fyrir td veik dýr, særð dýr, nýlega innflutt eða nýkomin á nýtt heimili.) Neyðarsímanúmer Dýrfinnu eru breytileg og má þau finna neðst á heimasíðunni HÉR

Hundar sem hræðast eitthvað og stinga af hlaupa yfirleitt í beina línu og finna svo stað til að fela sig, þar til streituhormónin hafa lækkað og fara þá á flakk aftur (þetta getur tekið mislangan tíma allt frá nokkrum klst yfir í daga).  Stundum verða þeir hræddir aftur og leikurinn endurtekur sig, en stundum ná þeir að slaka á og fara þeir á flakk og reyna að rata til baka. Þessa hunda virkar EKKI að kalla á og alls EKKI elta ef þeir sjást. Þá þarf að lokka til baka með róandi merkjamáli, lykt af eiganda eða ná í fellibúr.   Við mælum sterklega með að horfa á þetta 7 mínútna videó um Róandi merkjamál til að ná hræddum hundi

Fáðu fjölskylduna, vini, vandamenn og td nágranna til að hjálpa við að leita og óskaðu eftir hjálp í auglýsingunni ef þú hefur engan að eða vantar fleira fólk. Ekki er mælt með því að ókunnugir kalli á hundinn, heldur aðeins þeir sem hundurinn hefur tengingu við. (Alls ekki kalla ef hundurinn er hræddur, það á líka við eiganda). Þeir sem hjálpa við leit gera mest með því að labba og vera í virkri leit, s.s. leita undir öllu sem hægt er að troða sér undir eða á bak við, lýsa inn í runna td, ekki bara labba og horfa. Ef hundurinn sést en vill ekki koma (eða er hræddur, fælinn o.fl.) þá skal strax hringja í eiganda og lýsa í hvaða átt hundurinn fór og lýsa hundinum sjálfum (ól, beisli, litur, o.fl.) til þess að koma í veg fyrir að aðrir lausir hundar villi fyrir leitinni. Mælt er með að flestir lesi þessa grein Flóttaviðbragð hunda

Hundar sem hverfa að heiman frá sér án þess að hafa hræðst eitthvað og eru yfirleitt hugrakkir og yfirvegaðir að eðlisfari eru oft í því sem við köllum „ævintýraferð“. Þá hefur nefið náð að draga þá í smá leiðangur og finnast þeir yfirleitt í görðum nágranna eða nálægum hverfum. Þessa hunda má yfirleitt kalla á, en best virkar að nota venjulega kallið þeirra og passa að það sé ekki „smitað“ af tilfinningum eigenda, s.s. ekki öskra heldur nota venjulegu röddina en kalla hátt. 

EF VIRK LEIT HEFUR VERIÐ OG EKKERT SÉST TIL HUNDSINS Í NOKKRA KLUKKUTÍMA:

Ef það er opið hjá hundafangara/heilbrigðiseftirliti sveitarfélagsins þá er gott að hringja þangað og athuga hvort hundurinn sé þar. Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR) tekur við lausum hundum sem nást í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum sem eru á stórhöfuðborgarsvæðinu (Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Garðabær. Síminn hjá DÝR er 8227820 og er opið til kl 20:00  flest kvöld, en hægt að prófa að hringja eftir það.

Gott er að hringja einnig í lögregluna og athuga hvort einhver hafi tilkynnt um týndan hund þangað og skilja svo eftir símanúmer og lýsingu á hundinum ef ske kynni að lögreglan fengi tilkynningu.

DÝRAAUÐKENNI / ÖRMERKI

Til þess að hundurinn skili sér heim sem fyrst ef ókunnugur finnur hann skal skráður eigandi fara inná www.dyraaudkenni.is og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þetta er gert til þess að athuga hvort örmerkið sé rétt skráð, hvort það þurfi samþykki fyrir persónuupplýsingar, hvort símanúmer eiganda sé rétt inná, svo hringt sé strax í rétt númer td ef dýralæknir skannar dýrið. Einnig er hægt að skrá dýrið týnt eða stolið og mun þá sá sem skannar örmerki dýrsins sjá það strax. 

Félagið Dýrfinna